VANDINN VIÐ BLÝ

Það er á ábyrgð veiðimanns að hugsa um áhrif veiða sinna á umhverfið. Þar skipta skotfæri miklu máli. Blý högl hafa verið lang algengust og vinsæl meðal veiðimanna, en blý er mengunarvaldur og hefur talsverð áhrif á umhverfið. Það á ekki síst við við veiðar í votlendi, þar sem höglin sökkva til botns í grunnum tjörnum, og geta verið étin af andfuglum. Afleiðingin er blýmengun í mörgum tegundum sem deila búsvæðinu.

Miklar breytingar eru í farvatninu varðandi notkun á blýi við veiðar, og í raun skynsamlegt að huga að því að velja sér skotfæri úr öðrum málmum.
Í febrúar 2023 tók gildi reglugerð ESB um bann við notkun blýhagla á votlendissvæðum, eftir er að skilgreina votlendissvæðin á Íslandi.

HVAÐ ER Í BOÐI SEM EKKI MENGAR?

Stálhögl eru algengust og nú þegar fáanleg í flestum veiðibúðum. Stál er því eðlilegur valkostur fyrir þau sem stunda skotveiðar, sérstaklega í votlendi. Notkun á stálhöglum kallar hins vegar á að veiðimenn aðlagi sig að annari hegðun skotfæranna. Stálhögl eru léttari en jafnframt harðari en blý. Þessi munur þýðir meðal annars:

  • Slagkraftur þeirra dvínar hraðar, styttri færi.
  • Minni dýpt hagladreifar (styttra milli fremsta hagls og aftasta)
  • Missir ekki lögun líkt og blý við árekstur
  • Hagladreifin er þéttari.

Veiðimenn geta gert eftirfarandi til mótvægis.

  • Nota að minnsta kosti 2 númerum stærri högl í stáli en blýi.
  • Nota víðari þrengingu, til að mynda modified eða improved.
  • Skjóta ekki á lengra færi en 35 metra.
  • Skjóta úr haglabyssunni á spjald til að átta sig á dreif skota sem nota á.
  • Æfa skotfimi með stálhöglum, áður en haldið er til veiða.

Aðrir möguleikar en blý eru til dæmis Bismút, tin, tungsten-járn og tungsten polymer blöndur. Líkt og stál, hafa þessir málmar eða málmblöndur sína eigin eiginleika, og því er sterklega mælt með að veiðimenn æfi með þeim skotum sem þeir ætla að nota, áður en haldið er á veiðar.