Það getur komið fyrir að þú hleypir af en ekkert gerist. Þá er mikilvægt að fara rétt að til að losa skot úr byssu á öruggan hátt.
Það að byssa hleypir ekki af þegar þú tekur í gikkinn þýðir að annað hvort er hvellhettan gölluð og kveikti ekki í púðurhleðslunni, eða púðurhleðslan er blaut eða á annanhátt gölluð, þannig að ekki kviknaði í henni þó hvellhetta hafi skapað blossa við það að skotpinni skall á henni.
Nú er mikilvægt að ana ekki að neinu. Haltu byssunni þannig að hlaup vísi í örugga átt. Skot gæti hlaupið af innan skamms. ALLS EKKI kíkja í hlaupið. Haltu gikkfingur frá gikk, utan við gikkbjörg.
Framleiðendur skotfæra mæla með því að þú bíðir í að lágmarki 30 sekúndur og allt að 5 mínútur áður en hafist er handa við að fjarlægja skotið. Hér er haft í huga að bruni getur átt sér stað og púðurhleðsla brunnið á endanum, á ensku kallað hangfire.
Ef þú opnar byssu of snemma eftir að skot hleypir ekki af, getur skotið sprungið eftir tafinn bruna og valdið þér skaða, sem og byssunni.
Þegar þú hefur beðið í nokkra stund, er óhætt að opna byssulásinn og fjarlægja skotið. Skoðaðu vel hvellhettuna og berðu hana saman við þau skot sem þú hefur skotið. Ef farið eftir skotpinnann er svipað á dýpt og á öðrum skotum sem hleyptu eðlilega af, er þetta ákveðna skothylki gallað. Ef hins vegar farið eftir skotpinnann er grynnra, jafnvel illa sýnilegt, gæti þurft að skipta honum út.