LEYFÐ SKOTVOPN

Vopnalögum hefur nýlega verið breytt þ.m.t. 13. gr. laganna. Í henni er fjallað um flokka skotvopna. Í 1. mgr. kemur fram að enginn megi eiga eða nota skotvopn, nauðsynlega íhluti og skotfæri nema hafa til þess tilskilin leyfi eða heimildir. Hinu sama gildir um varanlega óvirk skotvopn og eftirlíkingar skotvopna. Alltaf þarf leyfi lögreglustjóra til að eiga vopn.

Skotvopn sem heimilt er að veita leyfi fyrir samkvæmt greininni skiptast í fimm flokka og  fer eftir skotvopnaréttindum einstaklinga hvaða skotvopn þeim er heimilt að nota. 

13. grein laganna

Enginn má eiga eða nota skotvopn, nauðsynlega íhluti og skotfæri nema hafa til þess tilskilin leyfi eða heimildir. Hið sama gildir um varanlega óvirk skotvopn og eftirlíkingar skotvopna. Skotvopn sem heimilt er að veita leyfi fyrir skiptast í fimm flokka og fer eftir skotvopnaréttindum einstaklinga hvaða skotvopn þeim er heimilt að nota. Alltaf þarf sérstakt leyfi lögreglustjóra til að eiga vopn.

•Flokkur A: 

Í A-flokk skotvopna falla minni rifflar og handhlaðnar haglabyssur. Ráðherra skal setja í reglugerð ákvæði um hvaða skotvopn falla þar undir.

Ný reglugerð hefur ekki verið sett eftir að lögunum var breytt en skv. 3. gr. gildandi reglugerðar, um skotvopn og skotfæri, falla eftirtalin vopn í A flokk: 

1. Haglabyssur nr. 12 og minni, þó eigi sjálfvirkar eða hálfsjálfvirkar.

2. Rifflar cal. 22 (long rifle og minni), þ.m.t. loftrifflar, þó eigi sjálfvirkir eða hálfsjálfvirkir. 

Lögreglustjóra er heimilt að veita einstaklingi með skotvopnaréttindi A til að eiga og nota slík vopn til veiða og íþróttaiðkunar. 

LÖGIN

•Flokkur B:

Í B-flokk skotvopna falla stærri rifflar og hálfsjálfvirkar haglabyssur. Ráðherra skal setja í reglugerð ákvæði um hvaða skotvopn falla hér undir.

Lögreglustjóra er heimilt að veita einstaklingi skotvopnaréttindi B, sem er með og hefur haft, skotvopnaleyfi í a.m.k. eitt ár þar á undan og leyfi til að eiga og nota skotvopn, til veiða og íþróttaiðkunar, sem falla í B-flokk. Ráðherra er heimilt að setja skilyrði um námskeið og próf sem viðkomandi þarf að hafa lokið. Það er nýtt skilyrði en áður en þessi breyting var gerð var nægilegt að sækja um slíkt leyfi. 

Ný reglugerð hefur ekki verið sett eftir að lögunum var breytt en skv. 3. gr. gildandi reglugerðar, um skotvopn og skotfæri, falla eftirtalin vopn í B flokk: 


–Leyfi fyrir rifflum með hlaupvídd allt að cal. 32 (8mm) og hálfsjálfvirkum haglabyssum skal ekki veitt nema sérstakar ástæður mæli með því, enda hafi umsækjandi haft skotvopnaleyfi í a.m.k. eitt ár. Lögreglustjóri getur veitt undanþágu ef ríkar ástæður mæla með að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar. 

FLOKKUR B

•Flokkur C:

Í C-flokk skotvopna falla loftskammbyssur. Ráðherra skal setja í reglugerð ákvæði um hvaða skotvopn falla þar undir. Þetta er nýmæli en áður féllu öll vopn til íþróttaiðkunar sem sækja þurfti um sérstakt leyfi fyrir undir einn flokk þ.e. flokk D.

Lögreglustjóra er heimilt að veita einstaklingi sem hefur skotvopnaleyfi og hefur verið virkur meðlimur í viðurkenndu skotfélagi í a.m.k. eitt ár skotvopnaréttindi C. Ráðherra er heimilt að setja skilyrði um námskeið og próf sem viðkomandi þarf að hafa lokið og skal ráðherra jafnframt setja í reglugerð ákvæði um skilyrði. Flokkur þessi er nýmæli en áður féllu öll vopn sem sérstakt leyfi þurfti fyrir til íþróttaiðkunar undir einn flokk þ.e. flokk D skv. gildandi reglugerð. Það er því nýtt að umsækjandi um vopn til íþróttaiðkunar verði að byrja á því að afla sér réttinda til að eiga loftskammbyssu og geti ekki sótt sér frekari rétt fyrr en að liðnum tveimur árum frá þeim tíma. Nýmæli er jafnframt að heimilt sé að kveða á um námskeið og próf. 

Lögreglustjóri getur veitt einstaklingi með skotvopnaréttindi C heimild til að eiga og nota skotvopn sem falla í þann flokk til íþróttaiðkunar. Á meðan reglugerð um skotvopn og skotfæri hefur ekki verið breytt verður að styðjast við gildandi ákvæði um flokk D í þeirri reglugerð við veitingu leyfa í flokki C skv. gildandi lögum. Þar sem lögin eru strangari en gildandi reglugerð gilda lögin. 

FLOKKUR C

• Flokkur D:

Í D-flokk skotvopna falla íþróttaskammbyssur og íþróttarifflar. Ráðherra skal setja í reglugerð ákvæði um hvaða skotvopn falla hér undir.

Lögreglustjóra er heimilt að veita einstaklingi skotvopnaréttindi D sem er með og hefur haft skotvopnaréttindi C í tvö ár þar á undan og hefur verið virkur meðlimur í viðurkenndu skotfélagi. Ráðherra er heimilt að setja skilyrði um námskeið og próf sem viðkomandi þarf að hafa lokið.
Einstaklingur sem er með skotvopnaréttindi D hefur heimild til að nota skotvopn sem falla í D-flokk til íþróttaiðkunar.

Reglugerð um skotvopn og skotfæri hefur ekki verið breytt eftir að breyting var gerð á flokkum D og C, en áður var þetta bara einn flokkur þ.e. flokkur D. Í núgildandi reglugerð er fjallað um íþróttaskotfimi í III. kafla reglugerðarinnar sem gildir áfram þar til reglugerðinni verður breytt, svo lengi sem hún stangast ekki á við lögin. Ef reglugerðin stangast á við lögin eða ef lögin eru strangari víkur reglugerðin.  

Samkvæmt gildandi reglugerð er eingöngu er heimilt að veita leyfi fyrir skotvopnum til keppni í viðurkenndum keppnisflokkum skv. I. viðauka við reglugerðina.

FLOKKUR D

• Flokkur S:

FLOKKUR S

Í S-flokk falla skotvopn sem flutt hafa verið inn til landsins á grundvelli undanþágu sökum ótvíræðs söfnunargildis þeirra vegna aldurs eða tengsla við sögu landsins og vopn sem teljast safnvopn af öðrum sérstökum ástæðum.

Lögreglustjóra er heimilt að veita einstaklingi skotvopnaréttindi S sem er með og hefur haft skotvopnaréttindi B í a.m.k. tíu ár þar á undan. Ráðherra er heimilt að setja skilyrði um námskeið og próf sem viðkomandi þarf að hafa lokið.

Lögreglustjóra er heimilt að veita einstaklingi með skotvopnaréttindi S leyfi til að eiga vopn í S-flokki til söfnunar.

Heimilt er samkvæmt leyfi lögreglustjóra að nota slíkt safnvopn tímabundið á ákveðnum svæðum samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur.

Bönnuð skotvopn

Samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laganna er óheimilt að flytja til landsins, framleiða eða eiga sérstaklega hættulegar tegundir vopna, eða hluta þeirra, sem eingöngu eru ætluð til nota í hernaði, svo og slík skotfæri. Í 3. mgr. sömu greinar er jafnframt sérstaklega tekið fram að óheimilt sé að flytja inn eða framleiða:
    a. sjálfvirka eða hálfsjálfvirka skammbyssu,
    b. sjálfvirkan eða hálfsjálfvirkan riffil,
    c. sjálfvirka haglabyssu,
    d. hálfsjálfvirka eða handhlaðna fjölskota haglabyssu með skothylkjahólfum sem tekur fleiri en tvö skothylki nema henni hafi verið breytt til samræmis við þennan áskilnað.

Þrátt fyrir framangreint getur lögreglustjóri leyft að innflutning á hálfsjálfvirkum skammbyssum og hálfsjálfvirkum rifflum, séu vopnin sérhönnuð og sannanlega ætluð til íþróttaiðkunar. Þá er heimilt með leyfi lögreglustjóra að framleiða vopn samkvæmt þessari málsgrein til útflutnings.

Innflutningur og framleiðsla á eftirlíkingum vopna er bannaður, enda sé ástæða til að ætla að erfitt sé að greina þær frá fyrirmyndinni sbr. þó heimild skv. 2. mgr. 14. gr. þegar um er að ræða notkun í atvinnuskyni. 

Hljóðdeyfar

Samkvæmt 3. mgr. 37. gr. núgildandi reglugerðar er óheimilt er að setja hljóðdeyfi á skotvopn nema með leyfi lögreglustjóra. Eingöngu er heimilt að veita leyfi fyrir hljóðdeyfi á stóran riffil sem notar miðkveikt skot. Þó er óheimilt að nota hljóðdeyfi ef skot hefur verið hlaðið niður þannig að hraði skots fari undir hljóðhraða. Að því leyti sem það samrýmist friðunar- og veiðilöggjöf getur lögreglustjóri, ef nauðsyn ber til, veitt undanþágu frá banni til að nota hljóðdeyfi á öll vopn til þeirra sem nota skotvopn vegna atvinnu sinnar, svo sem við eyðingu vargs eða meindýra í þéttbýli. Hljóðdeyfi skal skrá í skotvopnaskrá. Hljóðdeyfi skal geyma í sérútbúnum vopnaskáp í samræmi við 33. gr. reglugerðarinnar.

BÖNNUÐ SKOTVOPN