Lög nr 16/1998, í daglegu tali nefnd Vopnalög, innihalda reglur um flutning skotvopna. Athugaðu að þessar reglur ná til ferðalaga þinna frá geymslustað byssu, að veiðislóð.
Mikilvægt er að muna að sá sem ferðast með skotvopn, notar, hvort sem er til veiða eða æfinga eða keppni, skal alltaf vera með skotvopnaleyfi sitt meðferðis. Skotvopnaleyfi eru nú gefin út rafrænt.
Í 21. grein þessara laga er fjallað um flutning á byssum. Þar er lagt bann við því að vera með byssu á almannafæri. Við burð og flutning á byssum milli staða skulu þær vera óhlaðnar og í umbúðum. Það þýðir að byssa verður að vera í einhverskonar umbúðum þegar hún er flutt milli staða. Best er auðvitað að vera með skotvopn í þar gerðri tösku við flutning.
Greinin leggur líka bann við að bera á sér byssu innanklæða, hvort sem hún hefur verið gerð óvirk eða ekki, eða eftirlikingu af byssu.
Ekki verður nægilega rík áhersla lögð á það að við flutning sé vopnið ekki hlaðið. Gangið því alltaf vel úr skugga um það þegar gengið er frá vopni til flutnings (og einnig við frágang í vopnaskáp) hvort vopnið sé ekki örugglega ekki óhlaðið. Gott er að temja sér að gera þetta a.m.k. tvisvar áður en haldið er af stað og ganga bæði úr skugga um að skot sé hvorki í hlaupi né í skotgeymi. Hugsið líka um félaga ykkar og spyrjið þá endilega hvort þeir hafi ekki örugglega fjarlægt öll skot úr vopnum sínum.
Óheimilt er samkvæmt lögunum að meðhöndla byssur á nokkurn hátt undir áhrifum áfengis eða annara vímugjafa.
Það er á þína ábyrgð að ganga þannig frá byssum að flutningur þeirra sé í samræmi við lög. Ekki skilja eftir byssur sýnilegar í ökutæki og alls ekki skilja ökutæki með byssum í eftir ólæst.
Það getur líka valdið almenningi óþægindum að sjá byssur, þó í poka eða tösku sé, sýnilegar í bíl sem er lagt á almannafæri, t.d. við bensínstöð.