Á haglabyssum, líkt og á rifflum, er merking þrykkt í hlaup þeirra, á annarri hvorri hlið hlaupsins. Þessi merking sýnir hlaupvídd (gauge) og lengd skothylkis sem öruggt er að nota í byssuna.
Samsvarandi upplýsingar er einnig að finna á skotapökkum.
Haglaskot koma í lengdum merktum í tommum, 2 3/4 tomma, 3 tommur og 3,5 tommur. Áður fyrr voru haglaskot fáanleg í 2 1/2 tommu eða 65mm lengd, en eru nú horfin af markaði.
2 3/4 tommur
3 tommur
3 1/2 tomma
70 mm
76 mm
90 mm
Hér er rétt að árétta að við erum ekki að tala um stærð hagla, heldur stærð skothylkisins eingöngu.
Það er afar mikilvægt að þekkja byssuna sem þú notar og hvaða stærð af haglskotum passa í hana. Ef byssan þín er merkt til að taka haglaskot af stærðinni 2 3/4 tommur, passa stærri skothylki ekki í hana. Ef hún er merkt til að taka haglaskot af stærðinni 3 tommur, er yfirleitt hægt að skjóta minni skothylkjum einnig, (2 3/4) án vandkvæða. Skotsætið í hlaupinu er hannað til að skot sitji þétt í því og færsla á forhlaði og höglum úr skothylki inn í hlaup sé án fyrirstöðu.
Hér ber að hafa í huga að málin sem gefin eru upp eru á skothylkinu þegar því hefur verið skotið. Ef þú mælir óskotið skothylki, þ.e. stjörnubrotið fremst á skothylki er lokað, er það 10 mm styttra en eftir skot. Það er pláss í skothúsinu fyrir þessa 10 mm. Þess vegna getur þú óvart sett of langt skothylki í byssu sem ekki er gerð fyrir þá lengd.
Þar af leiðandi getur 76 mm langt skot auðveldlega komist fyrir í skothúsi sem ætlað er fyrir 70 mm skot, en þá verður skothylkið 6mm lengra en skothúsið þegar hleypt hefur verið af. Stjörnubrotið leggst á upp á röndina og getur ekki opnast til fulls, heldur verður hindrun í hlaupinu sem tefur útrás haglahleðslunnar, sem aftur leiðir til aukins þrýstings inni í skothúsinu. Þótt skothúsið sé þykkasti hluti hlaupsins getur þrýstingurinn sem myndast við þessar aðstæður auðveldlega sprengt það í sundur. (Skotveiðar í náttúru Íslands, bls 43).
Það er einnig afar mikilvægt að nota rétta stærð fyrir þá hlaupvídd sem byssan þín er (gauge). Á Íslandi eru 12 gauge haglabyssur algengastar. Nokkuð er um 20 gauge og mikilvægt að nota ekki 20 gauge skot í 12 gauge byssu. Það endar með ósköpum þar sem skotið er ekki þétt í og þegar hleypt er af afmyndast það við gasþrýstinginn sem brennandi púðrið veldur og skotið þenst út til hliðar og getur sprengt út hlaupið.
Þegar hleypt er af, opnast toppurinn á skotinu og högl og forhlað ryðjast út. Toppnum á haglaskoti er yfirleitt lokað með stjörnumynstri, þ.e. plastið er krumpað saman svo toppurinn hefur ákveðið stjörnulag þegar horft er beint ofan á skotið. Við skot lengist því skothylkið um 5 mm. Ef þú setur lengra skothylki í byssuna þína en hún er gerð fyrir, er því í raun ekki pláss fyrir þessa opnun á skothylkinu sjálfu, þrenging myndast strax við skot sem getur sprengt hlaupið og valdið skyttu talsverðum skaða. Mundu að skothúsið, þar sem sprengingin á sér stað, er rétt við andlitið á þér þegar þú hleypir af.
Mynd af mismunandi gerðum haglaskota, bæði hvað varðar Gauge, sem og lengd skothylkis. Taktu eftir litnum á 20G skotunum, þau eru alltaf gul til að forðast misskilning.
Botn haglaskota er yfirleitt úr málmblöndu, í daglegu tali kallað brass, þó það segi ekkert um málmblönduna sjálfa. Tilgangurinn er fyrst og fremst að halda utan um hvellhettuna. Lengd málmblöndunnar upp á skotið sjálft hefur í sjálfu sér engan tilgang annan en útlitslegan.