Fyrstu frásagnir um byssur á Íslandi eru frá 15. öld og segir þar frá átökum bænda. Árið 1581 er
kveðinn upp svokallaður vopnadómur í Tungu á Patreksfirði en það voru reglur um að bændur
sem áttu tilteknar eignir skyldu vopnbúast til að geta varist. Ástæðan voru strandhögg
sjóræningja en árið 1579 rændu sjóræningjar m.a. Eggerti Hannessyni sýslumanni. Í dómnum er
minnst á að sýslumenn hafi 5 árum áður látið safna vopnum og brjóta þó það hafi ekki verið
staðfest.
Til að gefa mynd af skotvopnaeign þá var árið 1788 var gerð könnun á því, í Suðuramti Íslands,
hverjir vildu gefa sig fram í landvarnarlið. Um 600-700 manns voru tilbúnir til þess með vopn af
ýmsum gerðum. Þar af munu hafa verið 59 skotvopn.
Byssueign eykst í byrjun 19. aldar og verulega í byrjun þeirrar 20.
Fyrstu raunverulegu reglurnar um meðferð skotvopna voru settar í lögreglusamþykkt fyrir
Reykjavík nr. 172 frá 1890. Reglur hennar voru ekki flóknar en m.a. kom eftirfarandi fram:
„Bannað að skjóta með byssum, skammbyssum, lyklabyssum, bogum eða öðrum skotvopnum á
eða yfir götur, stræti eða svæði sem almenningur fór um.“
Fyrstu heildarlögin um skotvopn voru lög nr. 69/1936 um innflutning, sölu og meðferð á
skotvopnum, skotfærum, allskonar sprengjum og hlutum og efni í þau. Þau giltu allt þar til lög,
nr. 46/1977 um skotvopn, sprengiefni og skotelda, voru sett árið 1977.
Gildandi vopnalög, nr. 16 frá 1998, tóku gildi 1. september árið 1998. Á grundvelli þeirra var sett
reglugerð um skotvopn og skotfæri nr. 78 frá 1998. Hún er einnig enn í gildi.
Á bæði lögunum og reglugerðinni hafa verið gerðar nokkrar breytingar eftir að þær voru settar
sem nánar verður vikið að síðar. Verulegar breytingar voru t.d. gerðar á lögunum með lögum nr.
11 frá 2024 og öðluðust þær gildi þann 1. júní 2024.
Reglugerðinni hefur þegar þetta er ritað, í september 2024, ekki verið breytt til samræmis við þær breytingar. Hafa verður það i huga við lestur laganna og reglugerðarinnar á meðan henni hefur ekki verið breytt. Reglugerðin gildir þó áfram nema hún stangist á við ákvæði laganna. Séu ákvæði laganna önnur en reglugerðarinnar og eða strangari gilda lögin.
Eftirfarandi er slóð á lögin með öllum breytingum: 16/1998: Vopnalög | Lög | Alþingi
(althingi.is)
Eftirfarandi er slóð á reglugerðina með síðari breytingum: 787/1998 – Reglugerð um skotvopn,
skotfæri o.fl. (island.is)
Nauðsynlegt er fyrir nemendur að lesa lögin og reglugerðina yfir í heild til að þekkja reglurnar
sem gilda um meðferð skotvopna og skotfæra. Jafnframt er nauðsynlegt fyrir
skotvopnaleyfishafa að fylgjast vel með þeim breytingum sem kunna að verða gerðar á lögunum
og reglugerðinni.
Góð regla er fyrir handhafa byssuleyfis að fylgjast með þessu og kíkja reglulega
inn á vef Alþingis og Ísland.is til að fylgjast með breytingum á lögunum og reglugerðinni.
Verði lögin eða reglugerðin endurskoðuðu í heild er mikilvægara en aldrei fyrr að kynna sér vel
hinar nýju reglur enda þýðir ekki að bera fyrir sig fákunnáttu verði með staðnir að brotum þó
reglur hafi breyst.
Frumvarp til heildar endurskoðunar á lögunum var lagt fram á Alþingi 2011-2012 en náði ekki
fram að ganga. Hér er slóð á það frumvarp til fróðleiks.