MIÐ Á BYSSUM

Mið á byssum er til að mynda línu milli auga skyttu og skotmarks, til að skytta hitta skotmark sitt. Mið eru mikilvægari á rifflum en haglabyssum, þar sem högl mynda mynstur eftir að þau yfirgefa hlaupið og ná yfir stærra svæði en ein kúla.

Haglabyssur eru yfirleitt með eina litla kúlu fremst á hlaupi meða rifflar geta verið með opin mið eða sjónaukamið.

Kúlumið

Lítil kúla, stundum sjálflýsandi, nærri hlaupenda haglabyssu. Sumar haglabyssur hafa aðra kúlu um miðbik hlaups. Skyttan nýtir sér kúluna sem viðmið þegar byssunni er beint að bráð og leitt fyrir hana ef hún er á hreyfingu. Þegar skefti haglabyssu fellur rétt að öxl skyttu, er sjónlína skyttu eftir hlaupinu og litla kúlan fremst er gott viðmið um hvert hlaupið beinist.

Opin mið

Sambland af lítilli kúlu, líkt og á haglabyssu, eða uppheyptu stykki fremst á hlaupi og samskonar upphleyptu stykki aftarlega á hlaupi með rauf. Einföld og ódýr mið, yfirleitt staðal útbúnaður á rifflum. Opin mið er fljótvirk í notkun. Þú horfir eftir hlaupinu og lætur fremra miðið falla í rauf aftara miðsins og bera þannig við skotmark.

Opin mið geta verið föst á ákveðinni fjarlægð, eða stillanleg.

Ljósops mið

Líkt og opin sigti eru þessi mið með upphleyptu stykki fremst á hlaupi en aftara mið er lítið gat eða op sem skytta horfir í gegnum. Fremra miðið er látið falla í opið og bera við skotmark. Ljósops mið eru nákvæmari en opin mið og eru stillanleg á betri hátt en stillanleg opin mið.

Sjónaukamið

Sjónaukamið er í raun lítill sjónauki sem er festur ofan á hlaup byssu. Hér er á ferðinni samansafn af glerjum og speglum sem stækka skotmarkið og hér þarf ekki að láta neitt bera saman.

Í sjónaukanum eru merkingar, oftast kross, kross þar sem tekið er úr krossinum í miðju, eða þverstrik með fæti (T) með stuttum strik merkingum fyrir ofan og neðan og til hægri og vinstri við krossmarkið sjálft. Þetta er nákvæmasta miðið og vinsælt til veiða.

Oftast eru sjónaukamið með stækkunarmöguleika, þysjun, sem gera þér fært að stækka þá mynd sem þú sérð, eða með öðrum orðum að færa bráðina nær þér í sjón.