HLEÐSLUR HAGLASKOTA

Það er í raun slagkraftur haglanna þegar þau hæfa bráðina sem mestu máli skipta. Því meiri slagkraftur, því meiri líkur á að deyða bráð strax. Slagkraftur hagla er í beinum tengslum við stærð þeirra í mm og hleðslu, magn púðurs.

Hleðsla haglaskota er því sambland af fjölda/þyngd hagla og styrkleika púðurhleðslu (Dram)

Merkingar á skotapökkum gefa þér upplýsingar um þetta.

Merkinga á pakka af skotum fyrir 12 gauge haglabyssu

Á myndinni hér að ofan má sjá á merkingu pakkans að þetta eru skot fyrir 12 gauge haglabyssu, 3 tommu löng. Hraði þeirra þegar þau yfirgefa hlaupið er 1350 fet á sekúndu, sem eru um 411 metrar á sekúndu. Næst má sjá að hleðslan er 1 únsa og 5/8, sem eru 46 grömm. Þetta er þyngd haglanna. Síðasta talan er 4 shot, sem segir til um þvermál haglanna, haglastærðin sjálf. Sumir framleiðendur merkja púðurhleðsluna á pakkan, þá er hún merkt sem Dram.

Dram er mælieining, í raun er hún mælieining frá þeim tíma sem svartpúður var notað og það vigtað út frá þessari mælieiningu. 16 Drams er 1 únsa eða 28 grömm. Sökum þess að nútíma reyklaust púður er mun léttara en svartpúður er þessi mælieining í raun ekki rétt og því tala þeir framleiðendur sem nota hana um „Dram equivalent“ eða Dram sambærilegt. Þetta átti að gefa þeim sem höfðu reynslu af því að nota svartpúður hleðslur í haglaskotum, mælieiningu sem þeir skildu. Það eru væntanlega ekki margir á lífi sem hafa skotið svartpúður haglaskotum, en mælieiningin, Dram equivalent, hélt sér.

Hér er myndband, á ensku, sem útskýrir þessa hluti aðeins, ásamt því að sýna ákomu mismunandi hleðslna.

Við tölum um Magnum hleðslur þegar þyngd haglahleðslunnar er 42 grömm eða þyngri. Það er einföld eðlisfræði að því þyngri sem hlutur er, því meiri kraft þarf til að ýta honum á sama hraða og léttari hlut. Þyngri haglahleðslur þurfa því öflugri púðurhleðslu til að ná sama hraða við hlaupenda og léttari hleðslur.

Magnum skot eru því með fleiri högl en ekki meiri slagkraft né langdrægni.

Hér komum við aftur að slagkraftinum. Þyngri hleðsla (fleiri högl) sem ferðast hægar en léttari hleðsla (færri högl) er með minni slagkraft þegar bráðin er hæfð og því ekkert líklegri til að deyða hana örugglega, þrátt fyrir fleiri högl (þyngri hleðslu)

Á sama hátt eru þyngri hleðslur ekki endilega langdrægari en léttari hleðslur.

Almennt má segja að sambland hraða hleðslu við hlaupenda, (muzzle velocity) og stærðar hagla skipti mestu til að skapa sem mestan slagkraft þegar bráðin er hæfð.

Sami styrkleiki púðurhleðslu (Dram) í tveimur mismunandi haglahleðslum skilar þyngri haglahleðslunni mun hægar út um hlaup, en þeirri léttari, hér getur munað tugum metra á sekúndu í hraða.

Ef notaðar eru Magnum hleðslur þarf að hafa í huga að ekki allar byssur þola slíkar hleðslur. Þrýstiþol byssunnar verður að vera nægjanlegt. Eldri byssur eru ekki endilega gerðar með nútíma hleðsluþyngdir í huga og gæta þarf því sérstaklega vel að notkun þannig hleðslna í eldri byssum.