Leyfi til lögaðila og fyrir vopnum til nota í atvinnuskyni
Samkvæmt 14. gr. vopnalaga getur lögreglustjóri getur veitt félagi, fyrirtæki eða stofnun leyfi til að eiga skotvopn, nauðsynlega íhluti eða skotfæri ef slíkur aðili þarf nauðsynlega á því að halda vegna starfseminnar, t.d. vegna aflífunar dýra. Skal þá tilnefna einstakling sem má nota skotvopnið fyrir hönd félagsins og skal sá annast vörslu þess, nauðsynlegra íhluta og tilheyrandi skotfæra. Slíkur aðili skal hafa skotvopnaréttindi í B-flokki.
Samkvæmt sömu grein getur lögreglustjóri veitt einstaklingi leyfi til að eiga og nota skotvopn, nauðsynlega íhluti og skotfæri af sömu ástæðu og að uppfylltum sömu skilyrðum.
Lögreglustjóri getur jafnframt veitt félagi, fyrirtæki eða stofnun leyfi til að eiga eftirlíkingu skotvopns ef slíkur aðili þarf nauðsynlega á því að halda vegna starfsemi sinnar, t.d. vegna kvikmyndagerðar. Með eftirlíkingu skotvopns er átt við hvers konar hlut eða tæki sem líkist vopni eða vopnagerð þannig að mögulega sé ekki í fljótu bragði eða úr fjarlægð unnt að greina að ekki sé um raunverulegt vopn að ræða. Skal tilnefna einstakling sem má nota skotvopnið og fara með það fyrir hönd félagsins og skal sá annast vörslu þess. Skal sá hinn sami hafa skotvopnaréttindi í B-flokki og er öðrum heimilt að nota eftirlíkinguna vegna starfs síns, undir stjórn þess sem tilnefndur er til að nota og fara með eftirlíkinguna.
Þar sem reglugerð um skotvopn og skotfæri hefur ekki verið breytt verður að ætla að ákvæði 3. gr. núgildani reglulgerðar, um flokk C skv. þeirri reglugerð þ.e. fyrir skotvopnum sem sérstaklega eru ætluð til minkaveiða eða meindýraeyðingar falli hér undir t.d. skammbyssur fyrir haglaskot (minkaveiðibyssur).
Undir ákvæði þessarar greinar falli að auki vopn skv. 7. gr. núgildandi reglugerðar þ.e. en samkvæmt henni getur lögreglustjóri veitt bændum, sem eru ábúendur á lögbýlum, og dýralæknum, leyfi til að eiga hentugar hlaupstuttar einskota byssur (fjárbyssur) þó eigi stærri en cal. 22 til aflífunar búfjár, enda uppfylli þeir að öðru leyti skilyrði laganna til að fá skotvopnaleyfi. Leyfi fyrir slíkum skotvopnum skal gefið út með þeim fyrirvara að það verði fellt niður, þegar skilyrði eru ekki lengur fyrir hendi.
Samkvæmt 15. gr. laganna getur lögreglustjóri heimilað samtökum eða opinberu safni að eiga og varðveita skotvopn til söfnunar. Í slíku tilviki skal tilnefna einstakling sem skal annast vörslu vopnsins eða vopnanna og skal sá einstaklingur hafa skotvopnaréttindi í S-flokki. Ráðherra skal setja í reglugerð nánari ákvæði um þessi atriði, svo sem um hvaða skilyrði samtök eða opinber söfn þurfa að uppfylla til að geta fengið leyfi samkvæmt þessari grein og hversu langan tíma er heimilt að veita slíkt leyfi.
Heimild viðurkenndra skotfélaga til að eiga skotvopn o.fl.
Samkvæmt 17. gr. laganna getur lögreglustjóri heimilað viðurkenndu skotfélagi sem hefur iðkun skotfimi að markmiði leyfi til að eiga skotvopn, nauðsynlega íhluti og skotfæri í flokki A, B, C og D til æfinga og keppni. Í slíku tilviki skal tilnefna einn eða fleiri aðila sem heimilt er að sjá um vörslu skotvopnsins eða skotvopnanna, nauðsynlegra íhluta og tilheyrandi skotfæra. Skal sá aðili sem tilnefndur er hafa skotvopnaréttindi í þeim flokki eða flokkum sem vopnin heyra undir. Félögin skulu jafnframt tilnefna einn eða fleiri skotstjóra fyrir hvert starfsár.
Ráðherra skal setja í reglugerð ákvæði um hvað telst vera viðurkennt skotfélag og í hversu langan tíma slík heimild gildir og ákvæði um hvaða skilyrði einstaklingur þarf að uppfylla til að teljast virkur meðlimur í slíku félagi. Ráðherra skal sömuleiðis setja í reglugerð ákvæði um atriði sem félag þarf að uppfylla til að fá leyfi, ákvæði um skipun stjórnar og ábyrgð hennar og skilyrði fyrir setu í stjórn og ákvæði um skotstjóra, tilnefningu þeirra og ábyrgð þeirra og skilyrði fyrir því að verða skotstjóri.
Skotfélagi er heimilt að leyfa einstaklingi að nota skotvopn og skotfæri til íþróttaiðkunar eða keppni undir stjórn skotstjóra þrátt fyrir að viðkomandi sé yngri en 20 ára eða þrátt fyrir að viðkomandi hafi ekki skotvopnaleyfi. Ráðherra skal setja í reglugerð ákvæði um lágmarksaldur til að nota hverja tegund skotvopna til íþróttaiðkunar samkvæmt þessu ákvæði og um önnur skilyrði til slíkrar íþróttaiðkunar.