Byssa er samsett úr fjölda íhluta sem saman mynda byssuna. Helstu hlutar byssu eru:
Helsti munur á riffli, eins og þeim sem hér er sýndur, og haglabyssu, eru mið. Dæmigerð haglabyssa er ekki með afturmið, heldur aðeins lítið mið fremst á hlaupi, líkt og litla kúlu. Á haglabyssu er hlaupið sjálft í raun mið byssunnar.
Þegar byssa er valinn fyrir eiganda er einkum horft til lengd skeftis, fall við hæl og fall að kambi.
Skefti
Skefti á haglabyssum og rifflum eru afar svipuð og gegna því meginhlutverki að veita gott grip og stuðning frá líkama (öxl) við byssuna. Skefti skiptast í aftara skefti, það sem leggst upp að öxl skyttu og framskefti sem fellur í lófa skyttu til að veita stuðning við fremri hluta hennar.
Hér skal þó hafa í huga að skefti haglabyssu gegnir stærra hlutverki í miðun byssunar, þar sem haglabyssur hafa ekki aftursigti. Það er því afar mikilvægt að skefti haglabyssu passi eigandanum. Þar skiptir lengd skeftisins mestu máli. Þegar skeftið er að réttri lengd situr byssan rétt þegar skytta ber hana upp að vanga og leggur skeftið að öxl. Þá á augnlína að vera eftir hlaupi byssunnar, án þess að skytta þurfi að beygja höfuðið til. Byssusmiðir geta hjálpað þér að mæla skeftið, hvort það passi þinni líkamsgerð.
Lás
Lásinn gegnir því hlutverki að opna byssuna og loka til hleðslu. Eftir að skot hefur verið sett í skotstæði (aftasti hluti hlaupsins), er lásnum lokað. Við lokun á lásnum dregst skotpinni til baka á flestum byssum sem er þá hlaðin og tilbúin til að hleypt verði af.
Skotstæði
Skotstæðið er hannað til að skotið sitji þétt í því og fari ekki fram hlaupið.
Hlaup
Hlaupið er úr málmi, rifflað að innan á rifflum, en slétt á haglabyssum. Hægt er þó að fá rifflað hlaup á haglabyssur ef ætlunin er að veiða með slögg skotum. Eftir að tekið er í gikkinn, hleypur pinninn fram og skellur á hvellhettunni. Við það kviknar í púðurhleðslunni og sú orka sem þá verður til, þrýstir skotinu fram hlaupið. Hlaup eru til í mismunandi lengdum. Byssur til forna voru yfirleitt með afar löngum hlaupum til að auka á nákvæmni þeirra.
Hlaupið er merkt nr. 4 á myndinni
Hlaup eru einnig til í mismunandi þyngdum, þá sérstaklega fyrir riffla.
Gikkur og gikkbjörg
Gikkbjörg gegnir því hlutverki að vernda gikk byssunar fyrir því að hann sé rekinn í eitthvað, hvort sem er eitthvað í umhverfi skyttu, eða að skytta taki óafvitandi í gikkinn. Reglan er að hvíla gikkfingur á gikkbjörg meðan skot er undirbúið og aðeins flytja gikkfingur á gikk þegar skytta er tilbúin að skjóta og búin að fullvissa sig um að skotið geigi ekki og bakland skots sé öruggt. Nánar verður fjallað um bakland í kafla um öryggi.
Skotgeymir
Skotgeymir gegnir sama hlutverki á haglabyssu og riffli, þó hönnun þeirra sé misjöfn. Skotgeymir haglabyssu er eins og rör sem tekur haglaskot hvert á fætur öðru í röð, annað fyrir framan hitt. Á Íslandi er óheimilt að nota haglabyssur sem taka fleiri en 2 haglaskot í skotgeymi.
Skotgeymir riffils er yfirleitt þannig hannaður að skot leggjast ofan á hvert annað og neðst er fjöður sem heldur þrýsingi upp á skotin, þannig að þegar eitt færist úr skotgeymi upp í skotstæði, lyftast þau skot sem eftir sitja í skotgeymi ofar í honum og efsta er tilbúið til að flytjast upp í skotstæði.
Riffilsjónaukar
Riffilsjónaukar eru valkvæðir á riffla. Þeir eru með merkingar t.d. 8×56. Þessar merkingar þýða að 8 er að skotmarkið virðist í einum áttunda af raunverulegri fjarlægð. Og 56 er þvermál fremsta safnglersins í millimetrum.
Ef riffilkúla lendir of ofarlega í skotmarkinu þá á að færa krosshárin í sjónaukanum í þá átt sem merkt er „niður“ á efri stilliskrúfunni.
Hljóðdemparar/hljóðdeyfar
Hljóðdeyfar eru valkvæðir á byssur. Þeir minnka hávaða fyrir aftan og til hliðar við byssuna sem er gott fyrir heyrn skotmannsins. Þeir minnka þó ekki hávaðann þannig að dýrin verði ekkert vör við skothvellinn. Þeir þyngja hinsvegar t.d. riffilinn þannig að breyta þarf stillingu sjónaukans.