Veiðar eiga sér stað út í náttúrinni. Við erum yfirleitt fjarri heimahögum, jafnvel ein á ferð og því mikilvægt að við gætum fyllsta öryggis við meðferð byssu á veiðum. Komum heil heim.
KLÆÐNAÐUR
Við þurfum alltaf að klæða okkur eftir veðri. Mismunandi bráð getur kallað á mismunandi klæðnað. Þó felulitur sé vinsæll meðal veiðimanna þá er öruggast, þegar það á við t.d. við veiðar í óbyggðum, að vera í appelsínugulum lit (eða öðrum mjög skærum lit). Hann sést vel í hinum ýmsu birtuskilyrðum og þegar þú ert að veiða upp til fjalla þá er gott að vera þannig klæddur að ofan eða hafa með sér vesti sem hægt er að fara í þegar veiðum lýkur eða ef slys verða.
Appelsínugulur veiðifatnaður er fáanlegur í samskonar mynstri og hefðbundinn felufatnaður. Mundu að þó að appelsínugulur litur sé vel sýnilegur mönnum, gildir ekki það sama um bráðina.
Almennt gildir að klæða sig í nokkur lög. Ull eða svipað efni innst, sem missir ekki einangrunargildi sitt þó efnið blotni. Síðan er lögum bætt utan á það eftir aðstæðum hverju sinni. Gott er að hafa með sér auka lag í bakpoka. Á rjúpnaveiðum til fjalla kólnar okkur fljótt ef við stoppum, þó ekki sé nema stutta stund. Þá er gott að hafa auka lag í pokanum til að skella sér í.
RJÚPNAVEIÐAR
Gott er að hafa eitthvað appelsínugult í fatnaði, hvort sem er húfa eða jakki. Veiðfélagar eiga auðveldara með að sjá þig álengdar. Slíkur fatnaður auðveldar líka að sjá þig ef þú þarft aðstoðar við, t.d. eftir óhapp. Annars gildir það sem segir að ofan, gott að vera í nokkrum lögum. Góðar göngubuxur sem hrinda frá sér vatni en anda. Góðir gönguskór og legghlífar. Gott að hafa með sér brodda, svokallaðir Esjubroddar eiga að duga í langflestum tilvika. Ef þú þarft öflugri brodda, ertu væntanlega komin í aðstæður sem ekki er skynsamlegt að vera í.
HREINDÝRAVEIÐAR
Gott að vera í einhverju appelsínugulu að ofan eða þannig vesti með í bakpokanum.
Hreindýraveiðar geta krafist talsverðar göngu og því mikilvægt að vera vel búin(n). Góðir skór, aukalög af fatnaði.
ANDA-OG GÆSAVEIÐAR
Hér er best að vera í felulitum sem eru sem næst því sem náttúran býður uppá.
Lambhúshetta er góð viðbót því andlitið á þér er eins og endurskinsmerki.
Andfuglar eru afar varkárir og sjá minnstu hreyfingu á þér.
Klæddu þig með það í huga að þú gætir þurft að ganga talsverðan spöl að veiðislóð, og halda þar kyrru fyrir í langan tíma.
Útbúnaður sem allt veiðifólk ætti að hafa meðferðis er gott nesti fyrir þann tíma sem ætlað er að vera við veiðar og jafnvel rúmlega það.
Tæki til rötunar, áttaviti og GPS tæki eru þar fremst í flokki. Lærðu að nota þessi tæki, annars koma þau að litlu gagni.
Lágmarks sjúkrabúnaður
Snærisspotti getur komið sér vel ef t.d. skóreimar slitna.
Neyðarskýli ef þú ert á fjöllum, getur bjargað lífi þínu ef þú af einhverjum ástæðum þarft að láta fyrirberast og kemst ekki aftur í hús eða bíl.