FORSENDUR LAGANNA

Segja má að þeir sem sömdu gildandi vopnalög hafi gefið sér eftirfarandi 4 meginforsendur eins
og fram kemur í frumvarpi laganna:

  • Í fyrsta lagi, að vopn væru hættuleg tæki og bæri að stuðla að því að þau væru ekki höfð
    um hönd nema í undatekningartilvikum þegar það styddist við gild rök.
  • Í öðru lagi, að það væri þekkt vandamál að vopn tengdust afbrotum og því verði leitast
    við að takmarka vopnaeign eins og kostur sé.
  • Í þriðja lagi, að meginreglan sé sú að öll vopn séu bönnuð nema þau séu sérstaklega
    leyfð.
  • Í fjórða lagi, að samræmi eigi að vera milli löggjafar í landinu er varðar skotvopn.

Við lestur og túlkun laganna er ágætt að hafa framangreint í huga.

Með gildandi lögum voru gerðar nokkrar breytingar frá því fyrirkomulagi sem áður hafði verið.
Eftirfarandi voru nýmæli samkvæmt lögunum:

  • Hugtakið vopn var skilgreint sbr. 1. gr. laganna
  • Sett voru ákvæði um iðkun skotfimi sem í þróttagreinar
  • Sérstök ákvæði voru sett í lögin um söfnun og sýningar vopna
  • Kveðið á um samræmda skrá fyrir skotvopn
  • Sérstök ákvæði voru sett um hnífa og önnur árásarvopn
  • Sú meginregla slegin að ekki væru veitt leyfi fyrir öðrum skotvopnum, en leyfileg eru skv.
    veiðilöggjöfinni
  • Heimilað að setja á stofn skotvopnaleigu
  • Eign skotvopns ekki lengur skilyrði til þess að fá skotvopnaleyfi

Hverjir stjórna vopnamálum?

Dómsmálaráðherra, með starfsmenn dómsmálaráðuneytisins sér til ráðuneytis, fer með yfirstjórn vopnamála á Íslandi. Almennt má því segja að það sé á hans sviði að gera tillögur að breytingum á vopnalögum til Alþingis þó auðvitað geti allir þingmenn lagt fram tillögur að slíkum breytingum. Dómsmálaráðherra setur einn reglugerð um skotvopn en hún verður að vera í samræmi við ákvæði vopnalaga. 

Ríkislögreglustjóri fer með daglega yfirstjórn málaflokksins með liðsinni lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu sem falinn hafa verið mörg verkefni á landsvísu m.a. skv. reglugerð um skotvopn, skotfæri o.fl. 

Lögreglustjórar í hverju lögregluumdæmi fyrir sig fara með daglega stjórn og leyfisveitingar í sínu umdæmi. Skotvopnaleyfi er gefið út til 5 ára í senn.

Gildisvið laganna þ.e. um hvað gilda lögin?

Í 1. mgr. 2. gr.  laganna er fjalla um gildissvið laganna. Þar eru talin upp í liðum a-i þau tæki og efni sem lögin gilda um: 

a. skotvopn,
            b. nauðsynlega íhluti skotvopna,
            c. skotfæri,
            d. sprengiefni og forefni til sprengiefnagerðar,
            e. skotelda,
            f. önnur vopn, svo sem hnúajárn, örvaboga, högg-, stungu- eða eggvopn, rafmagnsvopn, gasvopn og táragasefni,
            g. efni og tæki sem samkvæmt skilgreiningu 1. gr. teljast ekki til skotvopna, skotfæra, sprengiefna eða skotelda en hafa svipaða eiginleika og verkanir,
            h. eftirlíkingar þeirra vopna sem getur í a–g lið.
            i. óvirk skotvopn.

Í 2. mgr. er sérstaklega tekið fram að ákvæði laganna gildi einnig um einstaka hluta þeirra efna og tækja sem tilgreind séu í 1. mgr., svo sem hvellhettur og púður. Á námskeiði þessu verður ekki fjallað um þau efni og tæki sem falla undir d og e-lið 1. mgr. 2. gr. þ.e. skotelda og sprengiefni.

Samkvæmt 3. gr. a. gilda lögin líka um skotskýlingarbúnað annan en þann sem er í eigu Landhelgisgæslu, lögreglu, fangelsa eða erlendra lögreglumanna eða öryggisvarða sem starfa undir stjórn lögreglu. Með skotskýlingarbúnaði er átt við hlífðarbúnað, svo sem vesti og hjálma, sem markaðssettur er sem skotheldur og skal ráðherra setja ákvæði í reglugerð um hvaða búnaður fellur hér undir. Enginn má flytja inn, versla með, eiga eða nota slíkan búnað nema með leyfi lögreglustjóra.  

Samkvæmt 3. gr. laganna gilda lögin ekki um vopn, tæki og efni sem fjallað er um að framan og eru í eigu Landhelgisgæslu, lögreglu, fangelsa, erlendra lögreglumanna eða öryggisvarða sem starfa undir stjórn lögreglu. Ráðherra setur um þau sérstakar reglur.

Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er jafnframt tekið fram að ákvæði laganna gildi ekki um:  
    a. naglabyssur og skothamra sem ætluð eru til að nota í byggingariðnaði,
    b. línubyssur og tilheyrandi skotfæri, merkjabyssur eða önnur slík skotvopn og skotelda sem eingöngu eru notaðir við björgunarstörf,
    c. vopn og tæki sem eingöngu eru notuð við aflífun dýra í löggiltum sláturhúsum,
    d. önnur tæki og efni sem valda óverulegri hættu samkvæmt ákvörðun ráðherra.

Ráðherra er þó heimilt að setja um þessi tæki sérstakar reglur. 

Nokkrar almennar skilgreiningar skv. 1. gr. laganna o.fl. 

Í 1. gr. laganna eru nokkrar grundvallar skilgreiningar sem nauðsynlegt er að kunna skil á: 

Vopn:   

Með vopni er í lögum þessum átt við hvert það tæki eða efni sem unnt er að beita til að deyða eða skaða heilsu manna eða dýra tímabundið eða varanlega, enda sé með tilliti til aðstæðna ástæða til að ætla að fyrirhugað sé að nota tækið eða efnið í slíkum tilgangi.

Skotvopn:

Með skotvopni er í lögum þessum átt við vopn eða tæki sem hægt er með sprengikrafti, samanþjöppuðu lofti eða á annan sambærilegan hátt að skjóta úr kúlum, höglum eða öðrum skeytum.

Nauðsynlegir íhlutir: 

Með nauðsynlegum íhlutum skotvopna í lögum þessum er átt við hlaup, ramma, láshús, bæði efra og neðra, þar sem við á, sleða, hólk fyrir skothylki, bolta eða loku fyrir hleðsluhólf sem eru aðskildir hlutar en teljast til sama flokks og þau skotvopn sem þeir eru festir við eða þeim er ætlað að vera festir við.

Varanlega óvirkt skotvopn:

Með varanlega óvirku skotvopni í lögum þessum er átt við skotvopn sem hefur verið gert endanlega ónothæft með því að gera það óvirkt og tryggt hefur verið að allir nauðsynlegir íhlutir skotvopnsins hafi verið gerðir ónothæfir til frambúðar og að ógerlegt sé að fjarlægja þá, skipta þeim út eða breyta þannig að unnt sé að gera skotvopnið virkt á nokkurn hátt.

Skotfæri:

Með skotfærum er í lögum þessum átt við hvers konar skot eða skeyti sem gerð eru til að skjóta úr skotvopnum.

Í lok greinarinnar er tekið fram að ráðherra sé heimilt að ákveða nánar með reglugerð  hvaða efni og tæki falli undir framangreindar skilgreiningar og kveða nánar á um flokkun þeirra.

Með vísan til umfjöllunar að framan um gildissvið laganna og um framangreindar skilgreiningar má ljóst vera að gildissvið laganna er mjög rúmt. Lögunum er því ætlað að ná yfir öll möguleg tæki og tól sem hafa sambærilegar verkanir og skotvopn og skotfæri eða notuð eru til að búa til slík tæki. 

Gerðir vopna skv. 1. gr. reglugerðar um skotvopn og skotfæri 

Í 1. gr. reglugerðar um skotvopn og skotfæri eru skilgreindar nokkrar gerðir skotvopna eftir eiginleikum þeirra: 

1. „Sjálfvirkt“ er það skotvopn sem skjóta má úr röð skota með því að taka aðeins einu sinni í gikkinn.

2. „Hálfsjálfvirkt“ er það skotvopn sem skjóta má úr einu skoti á eftir öðru þar til skotgeymir er tæmdur, með því að taka aðeins í gikkinn í hvert skipti sem skoti er hleypt af.

3. „Handhlaðin fjölskota haglabyssa eða riffill“ er skotvopn þar sem skothylki er fært handvirkt úr skotgeymi í hlaup. Þessi vopn eru oft kallaðar „pumpur“

4. „Skammbyssa“ er stutt skotvopn með hlauplengd allt að 30 sm og ekki meira en 60 sm að heildarlengd.

Nauðsynlegt er að kunna þær.