Samkvæmt vopnalögum, nr 16/1998 skal hver sá sem hyggst eignast og/eða nota byssu, sækja námskeið til að öðlast slíkt leyfi.
Námskeið til að öðlast skotvopnaréttindi er í tveimur hlutum, bóklegt nám, sem þetta námskeið sinnir, og verklegt nám, sem fer fram á skotvelli. Ljúka skal bóklega hlutanum með tilskyldum árángri, áður en verklega námskeiðið er tekið.
Til að nýta byssu til veiða er einnig þörf á veiðikorti, sem Umhverfisstofnun gefur út, að uppfylltum kröfum um námskeið með tilskyldum árangri á prófi.
Námskeiðið er í nokkrum hlutum og sett upp á þann hátt að best er að fylgja því línulega. Að sjálfsögðu er hægt að fara fram og aftur og endurtaka kafla ef þú telur þörf á. Æfingapróf eru sett inn í námskeiðið til að hjálpa þér að meta hversu vel þú hefur náð efni námskeiðsins.
Þegar þú hefur lokið bóklega hluta námskeiðsins óskar þú eftir að taka lokapróf. Lokapróf eru haldin reglulega eða þegar þörf er á og staðsetning þeirra og tímasetning auglýst.
Til að standast próf þarf að ljúka því með 75% réttra svara að lágmarki. Ef þú stenst ekki próf er hægt að óska eftir endurtöku þess. Hægt er að endurtaka próf einu sinni án kostnaðar. Ef endurtaka þarf prófið oftar, er innheimt sérstakt endurtökugjald við þriðja próf. Gjaldið er 7.500 krónur fyrir þriðja próf.
Námskeiðið og það efni sem hér er að finna, er þér aðgengilegt áfram þó þú hafir lokið því sem og eftir að þú öðlast réttindi. Umsjónaraðili námskeiðs áskilur sér þó þann rétt að loka á aðgang notanda eftir að námskeiði er lokið, ef þörf er metin á því af tæknilegum ástæðum.
Skotveiðifélag Íslands, SKOTVÍS, er umsjónaraðili námskeiðsins samkvæmt samningi við Ríkislögreglustjóra. Við gerð námskeiðsins var m.a. stuðst við bókina Skotveiðar í íslenskri náttúru, eftir Ólaf E Friðriksson, með góðfúslegu leyfi ekkju höfundar.